Félagsnefnd GO var að mestu leiti óvirk á árinu þar sem áhrif Covid voru áberandi en í félagsnefnd s.l. starfsár sátu áfram frá fyrra ári þau Ari Þórðarson formaður, Kristjana Þorsteinsdóttir og Örn Bjarnason. Megin áherslan í starfi nefndarinnar hefur verið að sinna félagsstarfi utan opnunartíma golfvallarins. Á stórum köflum síðustu tvö ár hefur kórónaveiran haft mikil áhrif á starfsemi klúbbsins og takmarkað möguleika okkar allra til að skipuleggja félagsstarf. Á sama tíma og metfjölgun golfara í klúbbum innan GSÍ og ásóknin á golfvelli landsins er í hæstu hæðum þá er það miður að geta ekki aukið virkni félagsstarfsins í samræmi við þessa auknu ástundun. Við vonum að þetta ástand fari nú að ganga yfir og þá mun nefndin eflaust spýta í lófana.
Af starfi síðasta veturs var það eitt að frétta að við náðum að halda úti hinum vinsælu gönguferðum félagsmanna fram í lok apríl. Örn Bjarnason og Þór Ottesen Pétursson höfðu að mestu leiti leitt gönguhópinn síðustu ár en höfðu ekki tök í því síðastliðinn vetur og því vorum við heppin að Pétur Bjarnason tók við að leiða gönguhópinn og gerði hann það með stakri prýði.
Nefndin vonast eftir því að á árinu 2022 skapist betri möguleikar til að sinna félagsstarfi og þá er um að gera að virkja nefndina og alla þá sem áhuga hafa á að bæta félagsstarfið og ekki ólíklegt að við hóum í þig góði félagsmaður eða þér velkomið að hafa samband við skrifstofu GO og koma með þínar hugmyndir ef þú ert að lesa þetta og hefur eitthvað fram að færa.
Félagsnefnd þakkar að lokum félögsmönnum Odds sem tóku þátt í starfinu sem og þeim sem aðstoðuðu við að halda því gangandi, sérstakar þakkir fá kökugerðar og vöffludeigsmeistararnir Baldur „okkar“ Hólmsteinsson og Hörður Hrafndal Smárason sem stóðu vaktina ásamt Svavar og Þorvaldi í golfskálanum að lokinni göngu.
f.h. félagsnefndar
Ari Þórðarson