Félagsstarf 2021

Félagsstarf á tímum Covid var nokkuð óútreiknanlegt en það verður að viðurkennast að sveiflurnar í faraldrinum komu ekki mikið niður á okkar starfi þó vissulega hafi þurft að fresta einhverjum viðburðum.

Gönguhópur GO náði að halda úti starfi í upphafi árs og fram að páskum. Svo skemmtilega vildi til að það var akkúrat sá tími ársins sem það starf hefur nýtt sér fyrir sínar göngur og þetta var þriðji veturinn þar sem gengið er á sama tíma á laugardögum klukka 11:00 frá golfskálanum um Urriðavöll og nærumhverfi. Við hvetjum félagsmenn til að fylgjast með þessum hóp á facebook síðunni gönguhópur GO og taka endilega þátt. Þetta er opinn hópur og gestir velkomnir enda gangan eingöngu hugsuð sem heilsubót og boðið er upp á kaffi og með því í golfskála að lokinni göngu.

Þegar leið á apríl mánuð mátti greina líf á æfingasvæðinu á Urriðavelli þar sem golfþyrstir kylfingar æfðu sveifluna ýmist í þeirri von að ferðir til útlanda yrðu heimilar og aðgengilegar en það reyndist nú ekki alveg raunin og því var það gleðistund þegar Urriðavöllur opnaði og okkar starf hófst á fullu í byrjun maí.

Félagsstarfið á sumrin er að mestu í formi móta og okkar stærsti viðburður er meistaramót GO sem heppnaðist vel og þar gátum við boðið okkar kylfingum til veislu í golfskála án mikilla takmarkana.

 

 

 

 

 

 

Kvennanefnd GO er mjög virk og þær buðu upp á vorferð og ýmsa viðburði yfir sumartímann. Í lok sumars kláruðum við svo golfárið með lokahófi mótaraðar GO og Bændaglíma GO var haldin með hefðbundnu sniði og mikilli veislu en svo eins og hendi væri veifað lokuðust allar gáttir og almennt skemmtanahald var takmarkað. Kvennanefnd GO hugðist halda lokamót sitt og veislu en ekkert varð af því en við vonandi náum að finna þeirri veislu tíma þegar takmarkanir leyfa síðar í vetur. Það má með sanni segja að okkar aðalvertíð hafi rétt sloppið fyrir horn.

Hægt er að smella hér til að skoða myndir frá starfinu í sumar á myndasíðu GO

Meðan samkomutakmarkanir voru að herja á landsmenn og golfvellir landsins flestir farnir að huga að lokunum þá virtust ferðalög til heitari landa vera án mikilla takmarkana og við vorum heppin að hafa auglýst og boðið upp á síðasta félagsviðburðin sem almennt er ár hvert, haustgolfferð GO. Spánn var viðkomustaðurinn og farið var með GB ferðum á glæsilegt golfsvæði La Manga Club. Ferðin heppnaðist einkar vel og var í raun frábært endir á okkar félagsstarfi þetta árið og öruggt að við munum finna okkar góðan stað til að ljúka næsta sumri sem allir eru nú þegar farnir að hugsa um.

Nú bíðum við og sjáum hvernig faraldurinn þróast og vonandi náum við að bjóða upp á gleðistundir hér í golfskálanum síðar í vetur og við virkjum vonandi gönguhópinn í janúar. Á meðan við bíðum eftir því að geta hóað í stærri samkomur þá erum við gífurlega ánægð með nýjastu viðbótina við okkar félagsstarf sem er samstarfssamningur við Golfhöllina sem á og rekur glæsilega golfherma í aðstöðu sinni á Granda. Félagsmönnum GO stendur til boða frábært inngöngutilboð í golfklúbb Golfhallarinnar og þar ættu okkar félagsmenn að geta elft félagsandann í smærri hópum og við munum stofna til viðburða eins og aðstæður leyfa og halda þar golfmót og öruggt að það mun gleðja marga.