Skýrsla mótanefndar

Kæru félagar.

Upphafið:
Á fundi stjórnar GO fimmtudaginn 27. Apríl 2007 er tilkynnt að ég sé formaður mótanefndar og er ég því að klára fimmtánda árið sem formaður mótanefndar og sautjánda árið í mótanefnd. Ég sem ætlaði bara að vera 3 ár í mótanefnd og aldrei formaður.

Frá fyrsta ári til hins síðasta:
Þar sem ég hef alltaf haft áhuga á félagsstarfi hvers konar þá bauð ég mig fram til aðstoðar í mótanefnd og var ég á plani í tvö sumur. Það var ekki auðvelt að byrja sem formaður mótanefndar því sá sem var á undan mér var engin annar en Baldur Helgi Hólmsteinsson en það hjálpaði að hafa verið með honum þessi tvö sumur á plani og hann var með okkur í mótanefndinni árið 2007.
Ég var búinn að hugsa nokkuð um félagsstarfið í Oddinum og fannst vanta eitthvað fleira fyrir klúbbfélaga í tilliti til mótahalds sem gæti staðið allt sumarið og endað með flottu lokahófi í lokin. Safnmótin sem voru búin að vera undanfarin ár voru skemmtileg en fannst mér vanta meiri þátttöku í þau. Ég settist niður með þáverandi framkvæmdarstjóra og sagði honum frá þeirri hugmynd að fara af stað með liðakeppni GO og leist honum vel á og fór ég í þá vinnu að gera drög að liðakeppni Golfklúbbsins Odds. Grunnhugmyndin var alltaf sú að fá fleiri úr klúbbnum til að koma í innanfélagsmótin en höfðu ekki kjark vegna hárrar forgjafar og höfðu kannski aldrei farið í mót. Mótaröðin var þá með fullri forgjöf sem hægt var að fá á þessum tíma eða 36 og kynningin var á þann veg að þeir sem væru lengra komnir ættu að aðstoða byrjendur í mótinu á þann hátt að ef að reglur væru brotnar þá ætti ekki að öskra VÍTI VÍTI VÍTI heldur láta vita að þetta væri almennt séð víti og kenna hvað rétt væri og benda á að gera þetta ekki aftur. Þetta varð til þess að ég hygg að fleiri þorðu að taka þátt í mótum og líka að kylfingar þurfti ekki að hafa áhyggjur hvort skorið væri afleitt því það var líka hægt að treysta á liðsfélaga. Fyrsta árið voru ca. 10 lið sem kepptu og voru liðin stundum fullskipuð með sex kylfingum og sum með þremur og allt þar á milli. Þrír bestu töldu og fjögur mót af sex töldu. Verðlaun voru veitt fyrir þrjú fyrstu sætin og einnig voru þrír efstu heiðraðir í punktakeppni karla og kvenna með fullri forgjöf og einnig í höggleik án forgjafar. Þrjú mót töldu. Mesta lækkun forgjafar karla og kvenna frá fyrsta móti til síðasta var sérstaklega heiðrað. Heiðursverðlaun voru veitt eftir tillögu nefndar þar um. Nú þegar golfárið 2021 er að renna sitt skeið og ég fer yfir hvernig til hefur tekist þá held ég að þetta ár hafi bara verið nokkuð gott þó svo ytri aðstæður hafi verið enn og aftur litaðar af covid veirunni og veðrið ekki okkur í hag hér fyrir sunnan að þessu sinni. Nokkrum sinnum  þurfti að fresta mótum og oft var leikið í votu og vindi en gleðin alltaf til staðar enda klúbbfélagar Odds með eindæmum umburðarlyndir og glaðlegur og taka aðstæðum eins og þær koma fyrir alltaf með stæl. Það voru 38 lið skráð til leiks í byrjun sumars og  léku einu sinni eða oftar og 34 lið komu sér á stigalistann með að mæta að lágmarki í 3 mót. 219 kylfingar voru skráðir í þessi lið sem er mesta sem verið hefur frá upphafi mótaraðarinnar. Í gegnum árin hefur mótanefnd hvers tíma verið opin fyrir því að taka við tillögum og athugasemdum félaga til að þróun sé til staðar og er það vel. Ég held að sú þróun sem hefur átt sér stað sé til þess fallin að allir félagar Odds geti búið til lið og stundum hef ég komið kylfingum saman í lið þótt þeir þekktust ekki neitt fyrir tímabilið og það hefur tvisvar sinnum komið fyrir að þau lið hafi á endanum staðið uppi sem sigurvegari raðarinnar. Vona ég að þessi skemmtilega röð haldi áfram að vaxa og dafna.

Meistaramótið okkar var á sínum stað og tóku 290 kylfingar þátt þetta árið. Fjölmennustu flokkarnir voru 3. flokkur karla með 41 keppanda þar sem forgjafamörkin eru 15.1 – 20.0 og svo karlar 65+ í punktakeppni með 34 spræka kylfinga. 146 kylfingar kepptu í punktakeppni í sínum flokkum og 144 í höggleik. Það er gaman að skoða hvernig meistaramótið hefur þróast eftir að boðið var upp á punktakeppni. Í þeim flokkum þar sem áður var höggleikur og kylfingar með forgjöf frá 25.1 og upp úr hefur keppendum fjölgað eftir að þeim var breytt í punktakeppni sem er vel. Önnur breyting sem gerð hefur verið er að leyfa kylfingum sem eru 50 ára og eldri að velja hvort þeir vilji leika punktakeppni sama hvaða forgjöf þeir hafa. Sem dæmi á þessu ári þá völdu 77 kylfingar af báðum kynum 50 ára og eldri að leika punktakeppni sem segir okkur að það var þörf á þessu. Aldrei þessu vant þá sluppum við alveg þokkalega með veðrið þessa viku en það voru helst til tveir síðustu dagarnir sem hefðu mátt vera betri en ekki er hægt að fá allt í sama pakkanum, besta völlinn, skemmtilegustu kylfingana og Baldur á 5.

Kæru félagar, hvað getur maður sagt (skrifað) á þessum tímapunkti eftir öll þessi ár. Ég hef haft mikla gleði og ánægju að starfa í mótanefnd Odds og stíg stoltur frá mótanefndarborðinu og veit að klúbburinn okkar á fullt af flottu fólki sem mun taka við þessu kefli. Ég vil þakka öllum sem hafa lagt fram krafta sína fyrir klúbbinn og sum hafa verið með mér til fjölda ára þið vitið hver þið eruð.

Ég er ekki að hætta í klúbbnum og þið munuð sjá mig áfram og mun ég halda áfram að gera mitt fyrir minn flotta klúbb. Að lokum, þið eruð frábær.

Með golfkveðju.

Valdimar Júlíusson.