Skýrsla stjórnar

Aðalfundur GO 2021

Kæru félagar.

Ég vil þakka öllum félögum í Golfklúbbnum Oddi fyrir samstarfið á nýliðnu starfsári.  Þetta starfsár, varð því sem næst eðlilegt og áfram hélt sú mikla aukning iðkenda í golfíþróttinni sem við höfum séð undanfarin ár.  Allir golfklúbbar höfuðborgarsvæðisins eru orðnir yfirfullir og á nýliðnu golfþingi kom fram, að alls eru um 2000 manns á biðlista hjá þeim.  Það er útilokað að þessi hópur komist í golfklúbb á næsta ári og spurning hvað möguleikar séu í framtíðinni til að efla golf á Íslandi.  Með það fyrir augum að stækka golfsvæðið og efla það sem útvistarsvæði fyrir almenning vinnur Oddfellow hreyfingin að skipulagi starfssvæðis okkar í samstarfi við Garðabæ.  Það gleður mig að segja frá því, að góður gangur virðist nú í verkefninu og vonast ég til þess að það komist í almenna kynningu strax á nýju ári.  En hér erum við félagar í Oddi ekki í bílstjóra sætinu og getum einungis þrýst á landeiganda og bæjarfélagið að koma málinu áfram.

Í fyrsta sinn í sögu klúbbsins var aðalfundur haldinn rafrænn þar sem samkomutakmarkanir hömluðu hefðbundnu fundarhaldi og því var brugðið á það ráð að fá fjarfundarbúnað að láni svo fundur yrði lögmætur og tókst það vel.  Allir stjórnarmenn gáfu kost á sér í embætti á ný ásamt formanni og þar sem ekki voru aðrir í framboði var sjálfkjörið í stjórn. Ég færi samstilltu samstarfsfólki mínu í stjórn kærar þakkir fyrir samstarfið á árinu.
Við höfum verið gífurlega heppin með starfsfólk undanfarin ár og haldið vel í okkar mannskap. Fastráðnir starfsmenn voru allir þeir sömu en heildarfjöldi vallarstarfsmanna yfir sumarmánuðina jókst aðeins og ekki var vanþörf á enda tímabilið alltaf að lengjast og verkefnin mörg.
Skráðir félagsmenn í Oddi  voru 1652 í lok ársins. Af þeim eru 1.265 með fulla félagsaðild en 387 félagar eru með Ljúflingsaðild. Oddur telst í dag fjórði stærsti golfklúbbur landsins innan vébanda GSÍ enda fjölgar okkur lítið. Við fundum verulega fyrir mikilli ásókn í golfklúbbinn og í byrjun apríl var ljóst að staðan var orðin sú í fyrsta sinn í mörg ár að við urðum að hafna umsóknum og byrja að safna upp félögum á biðlista. Í dag eru yfir 200 væntanlegir kylfingar á biðlista og ljóst að fáir þeirra munu fá inngöngu á komandi tímabili og undirstrikar það þá miklu þörf að stækka svæði til golfiðkunar á höfuðborgarsvæðinu og mikilvægi þeirrar vinnu sem hafin er í skipulagi við stækkun Urriðavallar.  

Kvennanefnd og félagsnefnd færi ég sérstakar þakkir fyrir þeirra störf á árinu sem börðust við að halda úti starfi á tímum covid sem oft reyndi á en hrósa verður okkar fólki fyrir að nýta vel þá glugga sem sköpuðust á árinu.  Hátt hlutfall kvenna í GO hefur vakið eftirtekt á undanförnum árum og við fengið ýmsar spurningar um hvers vegna raunin sé sú. Auðvitað er þar margt sem vinnur saman en það eru oft litlu hlutirnir eins og aðgengi að salernum, góð umhirða og gott félagsstarf sem hafa aukið hlutfallið um einhver % á hverju ári.

Mikilvægi góðrar heilsársaðstöðu eru orðin öllum golfklúbbum ljós og hafa margir golfklúbbar tekið stór skref í þá átt að koma upp vetraraðstöðu til að brúa bilið milli veturs og sumars.  Meðan við bíðum eftir því að hægt sé að koma upp æfingaaðstöðu hjá okkur þá brúum við bilið í vetur með samkomulagi við Golfhöllina um sérkjör að golfklúbbi Golfhallarinnar sem opnaði nýlega glæsilega inniaðstöðu út á Granda.  Ég hvet félaga í klúbbnum til að æfa sig þar í vetur og nýta sér kjörin sem eru í boði.

Mótanefnd GO í forsvari Valdimars Lárusar Júlíussonar hefur staðið einstaklega vel að mótahaldi á árinu og mikil fjölgun þátttakenda var í stærstu mótunum okkar. Í meistaramót GO í ár, skráðu sig 350 keppendur meðan opið var fyrir skráningu en 290 skiluðu sér í mótið sem er nokkur aukning frá því 2020 þegar 256 tóku þátt.  Rögnvaldur Magnússon endurheimti klúbbmeistara titilinn í karlaflokki og Hrafnhildur Guðjónsdóttir mætti til leiks komin nokkra mánuði á leið en varði sinn titil í kvennaflokki nokkuð örugglega. Af einstaklingsárangri óskum við Inga Þór Hermannssyni til hamingju með að hafa náð inn í landslið LEK 55 + með forgjöf með flottri spilamennsku á mótaröðum LEK í sumar. Hægt er að lesa nánari fréttir af okkar keppnisfólki í skýrslu afreksnefndar.

Mikil aukning í golfíþróttinni endurspeglaðist í aukinni aðsókn í golfnámskeið og uppselt var á öll golfnámskeið sem boðið var uppá í sumar og verulega erfitt var að fá einkatíma hjá okkar golfkennurum. Æfingasvæðið okkar var nánast fullt megnið af sumrinu og á álagstímum er næstum ómögulegt að bæta við þjónustuna og ljóst að við þurfum að skoða leiðir til að fjölga básum eða víkka út okkar æfingaaðstöðu. 

Það er alltaf spenna í loftinu þegar sumarið nálgast og bjartsýnustu menn horfðu löngunaraugum til opnunar golfvallarsvæðisins í lok apríl þar sem verulegar takmarkanir á ferðalögum höfðu hamlað golfþyrstum kylfingum að ferðast og sækja heitari lönd til að stytta biðina. Vetur konungur hafði þó ekki sagt sitt síðasta og opnun Urriðavallar varð ekki að veruleika fyrr en 8. maí sem er samt í fyrra lagi miðað við meðaltal fyrri ára.
Til að mæta viðbúnu álagi sem fylgdi nokkurri fjölgun félagsmanna og miðað við reynslu síðasta árs var ákveðið að breyta skipulagi rástíma. Í mörg ár höfum við haft opna 3 daga fram í tímann í bókun en eftir skoðun og samtöl við þá sem prófað höfðu aðra uppsetningu þá var ákveðið að opna fyrir félagsmenn að skrá sig 6 daga fram í tímann. Reynsla sumarsins sýnir okkur að það kerfi hafi í grunninn virkað vel, mikil hreyfing var á bókunum og því oft hægt að stökkva á rástíma sem losnuðu með stuttum fyrirvara. Þegar við skoðum skráningar er skoðað á rástímum sem bókaðir eru frá 8:00 – 20:00 má sjá að nýtingin á þeim tímum var um 75%.

Á tímabilinu 8. maí – 15. Október, voru leiknir 40.109 hringir á Urriðavelli 2021 í samanburði við 36.774 hringi 2020. Og hefur spiluðum hringjum fjölgað um 71% prósent frá 2018.  Veruleg aukning var á spiluðum hringjum á Ljúfling en þar áætlum við að leiknir hafi verið um 15.000 hringir.  Heimsóknir okkar félagsmanna á vinavelli fækkaði nokkuð á síðasta ári og má því leiða að því líkur að breytingin í rástímaskráningu hafi hjálpað ykkur að finna rástíma við hæfi.

Völlurinn og endurbætur:
Stærsta einstaka verkefnið í endurbótum var uppbygging nýrra teiga við 14. braut. Samhliða slíku verkefni fylgir ýmislegt sem við sjáum ekki en þar var vatnskerfi endurnýjað og rafmagn fyrir sláttuþjarka lagt í jörðu. Okkar vallarstarfsmenn stóðu í ströngu í sumar en hafa klárað mörg verkefnin með glæsibrag. Landfylling á svæði við 13. braut var í gangi fram á mitt sumar en þar er verið að undirbúa framtíðarstækkun vallarins eins og félagsmenn fengu að sjá í sumar þegar teikningar af stækkun vallarins voru kynntar. Þá urðu þau tímamót að við fengum tengda hitaveitu við vallarsvæðið í sumar og kláruðum ljósleiðaralagningu að æfingasvæði. Sett var upp ný lýsing á æfingasvæði bæði út á svæðið og inni yfir básunum og tengd var greiðsluvél við boltavél svo hægt sé að kaupa stakar körfur.

Meðal margra verkefna í sumar má nefna:
9. braut, glompa fjarlægð og róbót virkjaður í slátt
14. braut, tveir teigar mótaðir og svæðið frágengið með grasi, gönguleið endurnýjuð og svæðið snyrt og rafmagn lagt fyrir sláttur róbót, glompa nálægt flöt tekin í burtu og tröppur að salerni endurmótaðar.
17. braut, glompa fyrir aftan flöt fjarlægð
18. braut, róbót virkjaður í slátt og glompa tekin við flöt.
Mikill fjöldi trjágreina var svo fluttur í burtu eftir trjáklippingar vetrar og vors. Við erum gífurlega heppin að fá í það verkefni mikinn áhugamann um umhirðu skógar og gróðurs á svæðinu hann Heimi Sigurðsson sem leiddi það verkefni og fyrrum starfsmaður okkar hann Halldór Leifsson tók einnig til hendinni í þessu verkefni sem aldrei mun ljúka.

Verkefni sem unnið er að núna og birtist okkur næsta sumar eru m.a. göngustígar lagðir gervigrasi og endurmótaðir á 4. 10 og 11. braut og mögulega einnig við 3. braut ef veður leyfir. Þar sem ánægja er með sænsku sláttuþjarkana þá er fyrirhugað að koma fyrir húsum fyrir nokkrar slíka í viðbót og áfram verður unnið í endurmótun á glompum á nokkrum brautum.


Fjárhagur:
Annað árið í röð er nokkur hagnaður af rekstri golfklúbbsins eða rúmar 10 milljónr króna. En aukið umfang var einkennandi fyrir rekstur klúbbsins á síðasta starfsári, tekjur eru hærri og útgjöldin einnig.  Tekjur aukast um 16% en útgjöldin um 17% en hluti af því má rekja til framkvæmda sem voru á svæðinu.  Þannig helst mikil aukning spilaðra hringja saman við aukinn fjölda starfsmanna.  Þá nýttum við afgang síðasta ár til að gera löngu tímabæra uppfærslu á veitingasal golfskálans en ljóst er að halda verður áfram í viðhaldi hans og eru bæði eldhús og salerni komin á tíma.  Fjárþörfin er því enn töluverð til ná að vinna upp mörg erfið ár á undan, þar sem ekki var hægt að sinna slíku viðhaldi.  Núna vinnum við í samstarfi við GOF að endurnýjun búnaðar til að hirða golfvöllinn og á nýliðnu starfsári var endurnýjaður búnaðar fyrir 25 milljónir og fyrirhugað er eyða svipuðu fé á næsta starfsári.  Þessi endurnýjun er nauðsynleg til að tryggja gæði golfvallarins og búa starfsmönnum okkar áhugavert starfsumhverfi.  Það er Framkvæmdastjórinn sem mun fara yfir reikninga klúbbsins síðar á fundinum. 

Framtíðin:

Mikil vinna hjá stjórn og starfsmönnum hefur farið í að undirbúa stækkun golfvallarins en það er lykil verkefni til að tryggja framtíðar tilveru klúbbsins og viðgang golfíþróttarinnar á höfuðborgarsvæðinu.  Ef fram fer sem horfir verður engin fjölgun golfbrauta á svæðinu um fyrirsjáanlega framtíð.  Því þó að leyfi verði gefið fyrir stækkun Urriðavallar þá er horft til þess að Setbergsvöllur muni víkja fyrir íbúabyggð á næsta áratug.  Það er því mikilvægt fyrir nýja stjórn að mynda sér skoðun á því með félögunum, hvernig klúbb við viljum hafa.  Því ljóst er að áframhaldandi fjölgun félagsmanna er ekki möguleg að óbreyttu.  Fyrir samfélagið er þetta ekki gott, því nú fara fjölmennar kynslóðir að ljúka starfsæfinni en golf er eins og við vitum góð leið til að viðhalda hreyfingu og virkni.  Sveitarfélögin verða því að hafa golfið í huga þegar ný landsvæði eru skipulögð, að þar sé pláss fyrir þessa íþrótt þar sem aldursbil virkra iðkenda spanna mun breiðara en gerist í nokkurri annarri íþrótt.  Það er því mikilvægt fyrir okkur félagsmenn að halda áfram að þrýsta á bæjarfélagið að styðja við stækkun golfvallarins og félagssvæði Golfklúbbsins Odds.

Ég vil ljúka þessu með að þakka starfsmönnum klúbbsins fyrir vel unnin störf og öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna óeigingjarnt starf í þágu klúbbsins. Við færum þeim samstarfsaðilum sem lögðu starfseminni lið á liðnu ári sérstakar þakkir. Að lokum þakka ég meðstjórnendum mínum og Sigurði Inga Halldórssyni áheyrnarfulltrúa GOF fyrir samstarfið á árinu. Ég er þakklátur fyrir að hafa haft ykkur með mér.

Stjórn Odds óskar félagsmönnum sínum gæfu og gleði á nýju ári og þakkar fyrir ánægjulegar samverustundir á árinu sem er að líða.

f.h. stjórnar GO
Kári Sölmundarson