Afreksstarf golfklúbbsins Odds var með nokkuð hefðbundna sniði í ár og grunnurinn að hverju ári er lagður á veturna þegar við hefjum inniæfingar sem að þessu sinni voru í aðstöðu GKG í Kórnum í Kópavogi. Aðstaðan þar er alveg til fyrirmyndar og þar fáum við inni með okkar æfingastarf og á móti höfum við veitt keppnis og framtíðarhópum GKG aðstöðu á okkar æfingasvæði á sumrin.
Í dag finnum við verulega fyrir því að erfitt er að vera án eigin inniaðstöðu og okkar sumar æfingaaðstaða er í raun sprungin undir núverandi álagi frá því snemma á vorin og út sumarið. Við höfum átt samtöl við Garðabæ og vonandi kemur að því að skilningur og vilji verði til þess af hálfu bæjarfélagsins að koma að uppbyggingu á heilsársaðstöðu á okkar svæði í samstarfi við okkur og landeiganda. Segja má að það sé eðlileg þróun ef horft er til þess að nýtt hverfi Garðabæjar í Urriðaholti er komið að golfvellinum og það er sýnileg fjölgun félagsmanna í okkar golfklúbbi úr því hverfi og tölur um fjölda barna í Urriðaholti ýta verulega undir þær hugmyndir okkar að byggja upp aðstöðu hér svo þau börn geti sótt æfingar í sínu bæjarfélagi og nærumhverfi í framtíðinni.
Æfingaárið hófst um miðjan janúar 2021 þegar samkomutakmörkunum var létt svo svigrúm skapaðist fyrir æfingar. Við vorum svo lánsöm að fá til afnota þrjú kvöld í viku sem rúmaði starfið vel og æfingar voru vel sóttar. Við æfðum inni fram að páskum og eins og á fleiri vígstöðvum átti covid hlut í máli og lokaði Kórinn í byrjun apríl en við vorum svo lánsöm að geta þá fært æfingar á okkar æfingasvæði Læring og því var æft úti það sem eftir lifði vetri og út sumarið.
Engar æfingar voru þennan vetur hjá okkar börnum og unglingum og við ætlum að gera betur árið 2022 og nú þegar er búið að leggja upp grunn að æfingastarfi sem við vonandi náum að byggja upp rólega á næstu árum. Inniæfingaðstaða á okkar eigin golfvallarsvæði í nánustu framtíð er svo grunnurinn að því að það starf nái svo flugi og geti verið okkar golfklúbb til sóma enda erum við íþróttafélag og það er í eðlileg krafa að við getum haldið úti æfingum og starfi allt árið eins og aðrar íþróttir og aðrir golfklúbbar gera í dag.
Við áttum fulltrúa á Íslandsmótinu í golfi í ár þar sem Sigurður Björn Waage Björnsson, Atli Elíasson og Birkir Þór Baldursson tóku þátt í sterku Íslandsmóti sem haldið var á Akureyri. Sigurður komst í gegnum niðurskurð eftir tvo daga og endaði um miðjan hóp keppenda en Atli og Birkir náðu ekki í gegnum niðurskurðinn og léku því bara tvo daga. Margir af okkar eldri keppniskylfingum sem eru gjaldgengir á LEK mótaröð eldri kylfinga létu sjá sig á allmörgum mótum á veg LEK. Á Íslandsmóti eldri kylfinga lék einn fulltrúi frá GO, Vignir Sigurðsson lék í flokki 65 + . Mótið var gífurlega sterk í ár og sérstaklega í flokki 50 + þar sem forgjafarviðmið var verulega lægra en undanfarin ár og ljóst að okkar kylfingar þurfa að spýta aðeins í lófana ef hugur er að keppa þar í framtíðinni. Við áttum hins vegar marga góða fulltrúa á mótaröð LEK í ár og þegar búið var að leggja saman stig á LEK mótum sumarsins var ljóst að okkar fyrrum formaður Ingi Þór Hermannsson náði sæti í B- landsliði karla 55+ með forgjöf sem er glæsilegur árangur og óskum við Inga til hamingju með það.
Það má segja að markmið æfingastarfsins sé að senda fulltrúa til leiks á Íslandsmót golfklúbba í þeim aldurflokkum sem við erum með æfingahópa. Í ár sendum við fimm keppnissveitir til leiks, við áttum fulltrúa í meistaraflokkum karla og kvenna og í flokkum 50+ karla og kvenna. Að auki áttum við svo flotta fulltrúa á nýtt Íslandsmót sem haldið var óformlega af hálfu LEK (landssamtaka eldri kylfinga) í flokki 65 +.
Ég hafði orð á því í skýrslu þessari í fyrra að meistaraflokkur kvenna væri nú í þeirri stöðu að fyrirséð yrði að margir klúbbar væru að koma upp með góð og öflug kvennalið og því líklegt að okkar konur yrðu loksins að vinna fyrir sæti sínu í efstu deild sem þær höfðu misst og það var mikil hugur í þeim að fá það tækifæri. Það kom því okkar konum í nokkuð opna skjöldu að fá boð um að færa sig upp í efstu deild á síðustu stundu sem þær að skv. venju þáðu þó liðskipan okkar hafi verið nokkuð þunn þar sem tvær úr æfingahóp voru óléttar og bakmeiðsli hrjáðu aðrar tvær. Þessi staða að geta ekki teflt fram okkar sterkasta liði í öllum leikjum ýtti undir að okkar hlutskipti var að keppa við lið GV um sæti í efstu deild á endanum og tapaðist sá leikur naumlega. Okkar konur eiga þá að keppa í 2. deild að ári en eigum við ekki bara að sjá til, við höfum alla veganna verið óslitið í deild þeirra bestu síðan 2013 þrátt fyrir að hafa stundum þurft að leysa aðra af.
Keppnislið GO kvenna 2021, Hrafnhildur Guðjónsdóttir, Bryndís Hanna Hreinsdóttir, Etna Sigurðardóttir, Berglind Rut Hilmarsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir, Kristjana S. Þorsteinsdóttir, Laufey Sigurðardóttir og Hrönn K. Sch. Hallgrímsdóttir.
Keppni í 2. deild karla þar sem við áttum fulltrúa í meistaraflokki átti að fara fram á Sauðárkróki en þegar leið á sumarið höfðu keppendur og liðsstjórar áhyggjur af því að erfitt myndi reynast að halda mótið á 9 holu velli þrátt fyrir að ýmis plön um breytingar á fyrirkomulagi væru í farvatninu. Það var því tekin ákvörðun síðla sumars að færa mótið í Kiðjaberg. Til leiks í Kiðjaberg mættu sterkar sveitir og okkar menn voru ákveðnir í að gera vel og eftir flott mót hjá okkar mönnum þar sem þeir voru hársbreidd frá því að keppa um sæti í efstu deild þá varð það okkar hlutskipti að keppa um 3. sætið við nágranna okkar úr Setbergi. Í fyrstu umferð mótsins töpuðu okkar menn gegn þeim og því mættu okkar drengir ákveðnir til leiks og ekkert annað en sigur kom til greina. Leikurinn var hörkuspennandi en endaði með góðum sigri okkar manna 3/2 og þriðja sætið okkar. Hugur er í okkar mönnum að reyna að gera betur að ári þó ljóst sé að keppnin verður enn harðari þar sem keppnissveit Keilis er komin í 2. deild og gamlar kempur sem keppa fyrir hönd Esju unnu sig upp úr 3. deild og ætla má að mörg lið stefni á að næla sér í þetta eina sæti sem hendir manni upp um deild.
Keppnissveit GO skipuðu, Bjarki Þór Davíðsson, Óskar Bjarni Ingason, Skúli Ágúst Arnarson, Sigurður Árni Þórðarson, Rögnvaldur Magnússon, Axel Óli Sigurjónsson, Birkir Þór Baldursson og Sigurður Björn Waage Björnsson.
Við áttum flotta fulltrúa í karla og kvennaflokki á íslandsmótum golfklúbba 50 +. Bæði lið kepptu í efstu deild. Kvennalið GO keppti á Kirkjubólsvelli í Sandgerði og karlarnir á Hamarsvelli í Borgarnesi. Kvennalið GO átti virkilega flott mót sigraði tvo leiki nokkuð örugglega en tapaði leikjum í riðlakeppni og undanúrslitum fyrir liðum GKG og GK þar sem nokkrar landsliðskonur eru innanborðs. Að endingu kepptu okkar konur um þriðja sætið við lið Keilis en þurftu að lúta í lægra haldi en engu að síður flottur árangur hjá þeim.
Lið GO kvenna var þannig skipað:
Björg Þórarinsdóttir, Laufey Sigurðardóttir, Auður Skúladóttir, Ágústa Arna Grétarsdóttir, Unnur Helga Kristjánsdóttir, Anna María Sigurðardóttir, Dídí Ásgeirsdóttir, Hulda Hallgrímsdóttir og Aldís Björg Arnardóttir.
Karlalið GO mætti sterkum sveitum GR og GKG í fyrstu tveimur umferðunum og tapaðist leikurinn við GR 5/0 en tapið var naumt gegn GKG 3/2. Í lokaumferð riðlakeppninnar unnu okkar menn sigur á liði GS 3/2 og okkar hlutskipti að lokinni riðlakeppni var að keppa um sæti 5 – 8. Eftir hörkuleik við lið GA sem tapaðist kepptu okkar menn um sæti í deildinni við lið heimamanna í GB. Leikurinn endaði 3 / 2 fyrir heimamenn og því varð það hlutskipti okkar manna að leika í 2. deild að ári. Það er hugur í okkar mönnum að stefna á sæti í efstu deild aftur en ljóst að keppni í þessum aldursflokki er að harðna eins og sjá má t.d. ef tekið er mið af styrk íslandsmótsins í þessum aldursflokki en þá er bara að bæta í og æfa vel.
Keppnissveit GO var þannig skipuð: Phill Andrew Hunter, Sigurhans Vignir, Jón Bjarki Sigurðsson, Einar Viðarsson Kjerúlf, Óskar Bjarni Ingason, Ingi Þór Hermannsson, Davíð Arnar Þórsson og Magnús R. Magnússon.
Golfklúbburinn Oddur átti glæsilega fulltrúa á fyrsta (Íslands) móti golfklúbba í aldursflokknum 65+ sem fram fór í nafni LEK (landssamtaka eldri kylfinga) á flottum velli Golfklúbbsins í Öndverðarnesi dagana 10.-11. ágúst.
Keppnislið GO var skipað eftirfarandi leikmönnum.
Ægir Vopni Ármannsson, Ragnar Gíslason, Þór Geirsson, Vignir Sigurðsson, Guðmundur Ragnarsson, Eggert Ísfeld Rannveigarson, Jóhannes Rúnar Magnússon og Ingi Kristinn Magnússon
Alls mættu 10 keppnislið til leiks frá neðangreindum golfklúbbum og dregið var í tvo riðla.
Í A- riðli léku GKG, GK, GR, GS og lið GM og í B- riðli GO, GV, GÖ, GF og Nesklúbburinn
GO hóf leik í mótinu á móti liði GV og höfðu okkar menn sigur í þeim leik 3 / 2. Næsti leikur okkar manna var gegn liði heimamanna í GÖ og endaði sá leikur með stórmeistarajafntefli 2,5 vinningur á lið. Leikur við Nesklúbbinn var svo næst á dagskrá og höfðu okkar menn sigur þar 3,5 – 1,5 vinningi. Í lokaleik riðilsins var svo leikið við lið Flúða og þar höfðu okkar menn sigur 4 – 1. Eftir að vinningar liðanna höfðu verið lagðir saman fór það svo að okkar menn sem töpuðu ekki viðureign söfnuðu saman 13 vinningum en lið GÖ hafði aðeins betur og náði sér í 15,5 vinninga og náði því efsta sætinu og okkar kappar léku því um verðlaun við lið GKG. Þar fór svo að lokum að lið GO hafði betur í leiknum um þriðja sætið 3 / 2 gegn sterku liði GKG, frábær árangur og liðið ósigrað á sínu fyrsta móti.
Þeir sem tóku þátt í afreksstarfinu í ár fá mínar þakkir fyrir sitt framlag sem frábærir fulltrúar okkar eins og undanfarin ár. Við stefnum á að halda úti góðu starfi á árinu 2022, hugur er í okkar fólki að gera betur á komandi ári og vonum við það svo innilega.
Svavar Geir Svavarsson,
formaður afreksnefndar GO