Skýrsla kvennanefndar 2021

Kvennanefndina árið 2021 skipuðu Halla Bjarnadóttir, formaður, Auður H. Björnsdóttir, Bylgja Valtýsdóttir, Helga Halldórsdóttir, Sigríður K. Andrésdóttir ásamt Helen Nielsen og Ingibjörgu Baldursdóttur sem gengu til liðs við nefndina eftir meistaramót. Guðrún H. Gestsdóttir og Signý Halla Helgadóttir hættu í nefndinni og þökkum við þeim kærlega fyrir gott samstarf. Starfsárið hófst ekki með hefðbundnum hætti þar sem nefndarkonur ákváðu að bíða með skipulagningu starfsársins og sjá hvernig aðstæður og samkomutakmarkanir myndu þróast.

Í byrjun mars opnaðist gluggi fyrir Púttmótaröð og fengum við aðstöðu í Kórnum á æfingatíma GO sem var á föstudagskvöldum. Til stóð að halda fjögur mót en því miður náðust ekki nema þrjú skipti. Verðlaunaafhendingu tókst ekki að ganga frá fyrr en í byrjun desember í beinni útsendingu nefndarkvenna og heimakstri verðlauna. Þátttaka í mótaröðinni var frekar dræm eins og við var að búast í ljósi aðstæðna og tímasetningar en 23 konur mættu alls 46 sinnum.

Ekki reyndist unnt að halda okkar árlega Kvennakvöldi eða Vorgleði en ákveðið var að fara í Vorferð á Flúðir í lok maí. Það fór síðan þannig að vegna veðurs þurfti að fresta Vorferðinni. Henni var því breytt í Sólstöðuferð sem farin var 22. júní þar sem 47 galvaskar Oddskonur brunuðu á Flúðir og skemmtu sér konunglega. Þátttaka var heldur minni en undanfarin ár sem líklega má bæði rekja til tímasetningar og fröken Kórónu.

FUGLAR og ERNIR söfnunin var með hefðbundnu sniði, kassinn á sínum stað og safnaðist fjöldinn allur af fuglum og þónokkrir ernir. Ákveðið var að halda áfram að draga reglulega út FUGLAPRINSESSUR yfir sumarið og alls voru dregnar út þrjár prinsessur. Nú desember var síðan FUGLADROTTNING dregin út og þá þurfti einnig að notast við Live útsendingu.

Ákveðið var að halda áfram með MÓTARÖÐ þar sem konur gátu skráð sig á hefðbundinn rástíma á nokkrum vikutímabilum og skila gildu skorkorti í mótaröðina. Keppt var bæði í punktakeppni með forgjöf og höggleik án forgjafar. Í heildina var hægt að skila inn fjórum skiptum og tóku 20 konur þátt. Þátttaka var mun minni en í fyrra þegar við prófuðum þetta í fyrsta sinn og því ólíklegt að þessu verði haldið áfram.

Það var ánægjulegt að geta haldið VINKVENNAMÓT GO og GK og var spilað á Hvaleyrarvelli 10. júní og 11. júní á Urriðavelli. Mótið heppnaðist ljómandi vel og voru margar glaðar Oddskonur sem lyftu bikarnum í lokahófinu á okkar heimavelli eftir góðan sigur á Keiliskonum.

Árlega Ljúflingsmótið náðum við einnig að halda en þó aðeins seinna en venjulega eða 20. ágúst og var veður þokkalegt. Það voru heldur færri konur sem mættu en venjulega eða 46 talsins, dagurinn heppnaðist engu að síður ljómandi vel og allir glaðir og sælir.

Til stóð að halda lokamót og uppskeruhátíð í september en á endanum var því frestað.

Árið 2021 varð því einnig með nokkuð óhefðbundnum hætti en ákaflega ánægjulegt engu að síður. Kvennanefndin ákvað að fara í Vorferð til La Sella á Spáni vorið 2022 og verður spennandi að sjá hvernig það gengur. Púttmótaröð er einnig komin á áætlun í aðstöðunni hjá GKG. Það er ljóst að mikilvægir liðir í kvennastarfinu eru Kvennakvöld og Vorferð í lok maí sem við vonum að náist að halda á næsta ári.

Með kærri Oddskveðju

F.h. kvennanefndar GO

Halla Bjarnadóttir